Bikarúrslit karla 2012, Stjarnan - KR 1-2. KR-ingar fögnuðu sigri að loknum úrslitaleik Borgunarbikars karla, sem fram fór á Laugardalsvelli í blíðskaparveðri í dag. Stjörnumenn léku vel í leiknum og geta verið stoltir af sínu liði, enda vel studdir af öflugum stuðningsmönnum og var sérstaklega gaman að fylgjast með baráttu stuðningsmannahópa beggja liða, sem stóður sig afar vel í stuðningi við sín lið. Lokatölur leiksins urðu 2-1 fyrir KR. Garðar Jóhannsson kom Stjörnunni yfir með góðu skoti eftir rúmlega fimm mínútna leik, en Gary Martin jafnaði metin fyrir KR um hálftíma síðar með skallamarki. Garðar skaut síðan í þverslá KR-marksins úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks, þannig að leikar stóðu jafnir. Sigurmarkið skoraði Baldur Sigurðsson þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir af leiknum og KR fagnaði sigri í bikarkeppninni annað árið í röð.